Um Running Tide

Running Tide er alþjóðlegt fyrirtæki með höfuðstöðvar í Portlandi, Maine í Bandaríkjunum, og rannsóknar- og þróunarstöð á Íslandi.

Á Íslandi erum við með þrjár starfsstöðvar - skrifstofu í Reykjavík, líftæknisetur og rannsóknarstofu á Akranesi, og framleiðslusvæði á Grundartanga. Hjá okkur starfa 15 manns auk 5-10 verktaka sem vinna með okkur í miklum mæli. 

Hvernig virkar aðferð Running Tide?

Það eru samþykkt vísindi að við verðum að draga mjög hratt og örugglega úr losun. Og þrátt fyrir að við myndum ná okkar markmiðum um samdrátt í losun er það ekki nóg, til að ná markmiðum um að halda hækkun hitastigs undir 1.5°C. Það er því mikilvægt til viðbótar að byggja upp getuna til að binda varanlega kolefni úr hröðu kolefnishringrásina í þá hægu, á mjög stórum skala - eða 6-10 milljarði tonna á ársgrundvelli árið 2050. Í dag er geta mannkyns til að binda kolefni varanlega mæld í þúsundum tonna. Það er því ærið verk framundan.

Skipta má kolefnishringrásinni í tvö kerfi – hægu hringrásina (eða langtímageymslu) og hröðu hringrásina. Þegar við dælum upp og brennum jarðefnaeldsneyti tökum við kolefni í formi olíu úr hægu hringrásina og komum því fyrir í þeirri hröðu. Þar endar það í andrúmslofti, lífhvolfi (t.d. trjám) og efstu lögum sjávar. Varanleg kolefnisbinding (e. Carbon Dioxide Removal) snýst um að skila kolefni aftur úr hröðu hringrásina í þá hægu.

Aðferðin sem Running Tide rannsakar og þróar, snýst um að magna upp náttúrulega ferli í hafinu, sem nú þegar binda varanlega milljarði tonna af kolefni á ári hverju. Við gerum það með því að búa til kolefnisflothylki (e. Carbon buoys) úr timbri og kalksteini og síðar þörungum sem við fleytum á rúmsjó, ásamt sérhönnuðum mælitækjum sem fylgjast með. Við nýtum og vinnum spálíkön um dreifingu, og fylgjumst með hvar og hvenær efnið sekkur. Þegar efnið sekkur niður fyrir 1000m er það komið í hægu hringrásina þar sem það geymist í hundruðir og jafnvel þúsundir ára. Kolefnið sem er bundið í timbrinu og þörungavextinum er því bundið varanlega.

Meiri lestur:

Afhverju Ísland?

Marty Odlin, stofnandi Running Tide, þekkir Ísland frá fyrri tíð þegar hann rak útgerð í Portland, Maine. Á þeim tíma, leit hann til Íslands sem leiðandi aðila í sjálfbærum og tæknivæddum veiðum, og endaði á að vinna náið með nokkrum tæknifyrirtækjum á Íslandi til að bæta flotann sinn. Það voru þau tengsl og reynslan af að hafa unnið með íslensku fólki sem voru fyrsti hvatinn.

Þá er landfræðileg lega Íslands mjög heppileg fyrir kolefnisbindingu í hafi með aðferð Running Tide, hvað varðar aðgengi að djúpsjó og hafstraumum. Hér er mikil þekking á hafinu og öflugur iðnaður. Orkan er græn og endurnýjanleg, og stjórnvöld hafa sett sér stefnu um að vilja vera vagga nýrra lausna í baráttunni við loftslagsvánna. Að auki naut Running Tide liðsinnis Transition Labs við að koma sér fyrir, sem hjálpaði mikið.

Þarf leyfi fyrir þetta sem þið eruð að gera?

Eins og staðan er í dag eru ekki til sérstök leyfi fyrir kolefnisbindingu í hafi. Hins vegar eru til leyfi fyrir rannsóknum í efnahagslögsögunni sem stjórnvöld veita samkvæmt lögum. Samkvæmt venju (upplýsingum frá lögfræðilegum ráðgjöfum Running Tide) er það utanríkisráðuneytið sem gefur út leyfi þar sem lög um efnahagslögsöguna heyra undir það. Running Tide sótti því um rannsóknarleyfi í apríl 2022.

Utanríkisráðuneytið leitaði umsagna sérfræðistofnana á málasviðinu - Umhverfisstofnunar, Hafrannsóknastofnunar, Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu. Í kjölfar umsagnanna er leyfið veitt í júlí 2022.

Leyfið er veitt til fleytingu á 50.000 tonnum af flothylkjum innan lögsögu Íslands á fjögurra ára tímabili (2022-2026)

Það er nógu stórt leyfi til að hægt sé að rannsaka það sem þarf að rannsaka, en nógu lítið til að áhætta sé lítil. til samanburðar má nefna að R&Þ leyfi vegna niðurdælingar miða við að 100.000 tonn af CO2 teljist rannsóknir og þróunarstarf. Þá hefur Sabin Center for Climate Change Law gefið út tillögu að lagaramma fyrir rannsóknar- og þróunarstarf vegna kolefnisbindingar í hafi þar sem miðað er við sama magn, þ.e. að verkefni teljist R&Þ þegar þau eru minni en 100.000 tonn. Leyfi Running Tide er því af minni endanum þegar litið er til annarra sambærilegra verkefna.

Leyfið er að auki gefið út með eftirfarandi skilyrðum:

Að Running Tide hafi samráð við Umhverfisstofnun og Hafrannsóknastofnun og deili gögnum að rannsókn lokinni.

1. Yfir gildistíma leyfisins skal umsækjandi hafa samráð við Hafrannsóknarstofnun og Umhverfistofnun um gang mála.
2. Umsækjandi skal upplýsa Hafrannsóknarstofnun og Umhverfisstofnun um framgang rannsóknarinnar og allar niðurstöður að rannsókn lokinni.

Running Tide hefur sett upp samráðsferla með Umhverfisstofnun og Hafrannsóknarstofnun þar sem á þriggja mánaða fresti deilum við upplýsingum um framgang, niðurstöður, og næstu skref með stofnunum.

Að Running Tide fái öll önnur leyfi, eða staðfestingu á að ekki þurfi leyfi.

3. Umsækjandi skal sækja um öll önnur nauðsynleg leyfi vegna framkvæmdar rannsóknarinnar eða eftir atvikum fá staðfest hjá viðkomandi leyfisveitendum að leyfisskylda sé ekki til staðar, svo sem samkvæmt 9. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda vegna mögulegs varps í haf, 63. gr. laga nr. 60/2013 vegna innflutnings framandi lífvera og ákvæðum laga nr. 132/1999 varðandi fljótandi mannvirki.

Sérstaklega er nefnt í leyfinu að fá staðfestingu á að rannsókn Running Tide falli ekki undir varp í hafið. Varp í hafið - þeas. að nota hafið sem ruslakistu - er bannað. Hins vegar er mjög skýrt að það að koma fyrir efnum eða hlutum í hafinu í öðrum lögmætum tilgangi en að farga þeim telst ekki vera varp. 

Running Tide bað um staðfestingu frá Umhverfisstofnun - sem fer með lög um varp í hafið -  að rannsóknirnar sem leyfi hafði fengist fyrir væru ekki varp, enda um lögmætan tilgang (rannsóknarstarf) að ræða. Þá ætti kolefnisbinding í hafi ekki að falla undir að vera varp í hafið, þar sem kolefnisbinding í hafi snýst um að draga úr neikvæðum áhrifum koldíoxíðsmengunar á hafrýmið. Lög um varp í hafið voru sett að alþjóðlegri fyrirmynd og eiga að fyrirbyggja að fólk noti hafið sem ruslahaug og losi hættuleg efni í hafrýmið.

Við töldum auðsótt að fá þá staðfestingu. Eftir langa yfirlegu og samskipti sem fyrst bentu til að Umhverfisstofnun væri sammála skilningi okkar, komst stofnunin að þeirri niðurstöðu að rannsóknir Running Tide væru varp í hafið. Að mati Running Tide var sú niðurstaða ekki byggð á réttum skilningi á vandamálum hafsins, tilgangi kolefnisbindingar, eða lögunum, og var þeirri ákvörðun skotið til næsta stjórnvalds. Umverfisráðuneytið og settur Umhverifsráðherra tók málið til afgreiðslu og komst að þeirri niðurstöðu að rannsóknir sem leyfi hefur fengist fyrir séu ekki varp, sem gerði okkur kleift að hefja rannsóknirnar. 

Í millitíðinni hefur vinnuhópur alþjóðahafmálastofnunar um kolefnisbindingu í hafið gefið út vinnuskjöl þar sem skýrt kemur fram að kolefnisbinding með þeim aðferðum sem Running Tide rannsakar og þróar (e. Terrestrial and Marine Biomass Sinking, Ocean Alkalinity Enhancement) séu ekki varp enda verið að koma fyrir efnum og hlutum í öðrum tilgangi en að farga þeim. 

(Running Tide er ekki að flytja inn neinar lífverur og því á það ekki við).

Að Running Tide rannsaki afdrif efnis sem sekkur, og upplýsi um þær niðurstöður.

4. Að rannsókn lokinni skal umsækjandi upplýsa um niðurstöðu rannsókna á afdrifum þess efnis sem sekkur til hafsbotns, þ.e.a.s. hvort það leysist upp á hafsbotni eða grefst í set líkt og áformað er að gerist. Þessar rannsóknaniðurstöður eru forsenda fyrir frekari leyfisveitingu til framtíðar litið.

Mikilvægur hluti rannsóknarinnar er að rannsaka áhrif þess að binda kolefni í djúpsjó á hafsbotn og vistkerfin þar. Til að svara þeim spurningum erum við bæði með okkar eigin rannsóknir á hafsbotni á 30m dýpi, þar sem við getum sótt mikið magn upplýsinga fremur auðveldlega, sem og í samstarfi við annars vegar Ocean Networks Canada og hins vegar Alfred Wegener Institute um rannsóknir í djúpsjó, og munu þær veita okkur mikilvæga innsýn í þetta málefni.

Frekari upplýsingar:

Að Running Tide hafi samráð við Samgöngustofu og Landhelgisgæsluna um siglingaöryggi. 

5. Umsækjandi skal hafa samráð við Landhelgisgæslu Íslands og Samgöngustofu til að tryggja siglingaöryggi.

Í kjölfar leyfisveitingar kynntum við fyrirætlanir og rannsóknaráætlanir fyrir Samgöngustofu og Landhelgisgæslu. Í framhaldi af því höfum við stillt upp samráðs- og upplýsingaferli með Landhelgisgæslu og Samgöngustofu, þar sem stofnanirnar eru upplýstar um fyrirætlaðar fleytingar og fá skýrslur að þeim loknum.

Ég vil vinna með ykkur, hvar hef ég samband?

Við auglýsum öll okkar störf á Alfred.is, svo við mælum með að þú fylgist með okkur þar. Ef þú ert að hugsa um annars konar samstarf, þá máttu endilega senda á iceland@runningtide.com.

Subscribe to Running Tide á Íslandi

Fréttabréf Running Tide á Íslandi um starfsemi okkar á Íslandi, ásamt áhugaverðum og nýlegum upplýsingum um loftslagsmál og hafið.