Aðferðir Running Tide

Hvernig virka aðferðir Running Tide?

Það eru viðurkennd vísindi að draga þarf úr losun gróðurhúsalofttegunda til að koma í veg fyrir frekari loftslagsbreytingar. Samkvæmt Milliríkjanefnd Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar (IPCC) er samdráttur í losun einn og sér ekki nægilegt til að ná markmiðum Parísarsáttmálans um að halda hækkun hitastigs undir 1,5°C heldur þarf að auki að binda kolefni varanlega. Kolefnisbinding þarf að gerast á mjög stórum skala eða sem nemur 6-10 milljörðum tonna á ársgrundvelli árið 2050. Í dag er getan til að binda kolefni varanlega mæld í þúsundum tonna á ári. Það er því mikið verk framundan.

Skipta má kolefnishringrásinni í tvö kerfi – hægu hringrásina og hröðu hringrásina. Þegar við tökum og brennum jarðefnaeldsneyti færum við kolefni í formi olíu, gas, og kols úr hægu hringrásinni og losum það inn í þá hröðu. Þar endar það í andrúmslofti, lífhvolfi og efstu lögum sjávar. Varanleg kolefnisbinding snýst um að skila kolefni aftur úr hröðu hringrásinni í þá hægu.

Aðferðirnar sem Running Tide þróar, snýst um að magna upp náttúruleg ferli í hafinu, sem binda náttúrulega milljarða tonna af kolefni á ári. Við þróum þróum aðferðir sem hraða náttúrulegum ferlum hafsins (þeas. líffræðilegu pumpunni og leysnipumpunni) til að binda kolefni. Við vinnum efni (tölum um það sem kolefnisflothylki e. Carbon buoys) úr timbri og kalksteini og þörungum sem við fleytum á rúmsjó, ásamt sérhönnuðum mælitækjum. Við notum spálíkön til að fylgjast með hvar og hvenær efnið sekkur. Þegar efnið sekkur niður fyrir 1.000 metra er það komið í hægu hringrásina þar sem það geymist í hundruðir og jafnvel þúsundir ára. 

Fyrsti fasi verkefnisins var að rannsaka og þróa aðferðir við að sökkva lífmassa af landi (í okkar tilfelli timbri) til varanlegrar geymslu á kolefni. Timburkurlið er húðað kalksteinsefnum til að vega á móti mögulegum neikvæðum áhrifum, áður en því er fleytt á rúmsjó ásamt mælitækjum til að fylgjast með og mæla áhrifin. Við sökktum rúmlega 19,000 tonnum af efni og bundum varanlega það sem samsvarar rúmlega 25,000 tonnum af CO2-ígildum. (Sjá: Ársskýrsla 2023, Aðferðafræði og yfirlit um útreikninga).

Frekari upplýsingar: