Fyrsta botnsjávarrannsóknin komin af stað!
Stórum áfanga var náð í mánuðinum þegar fyrsta fasa botnsjávarrannsóknar Running Tide á Íslandi var hrint í framkvæmd í Hvalfirðinum.
Aðferð Running Tide við að binda kolefni í hafi snýst um að magna upp náttúrulega ferla sjávar. Ein afkastamesta leið sjávar til að binda kolefni er með því að sökkva lífmassa í djúpsjó og koma kolefninu þannig úr hröðu kolefnishringrásinni. Þetta gerist í náttúrunni í dag þegar lífmassi af landi, t.d. timbur, eða í sjó, t.d. þörungar, sökkva í stórum stíl á hafsbotn.
Rannsókninni, sem er ein af mörgum sambærilegum á vegum fyrirtækisins, er ætlað að varpa ítarlegu ljósi á afdrif og áhrif þess að sökkva kolefnisríkum lífmassa og kalksteini á hafsbotn. Þannig líkjum við eftir því sem gerist á rúmsjó, en getum betur fylgst með og greint áhrifin, þó með þeim fyrirvara að aðstæður og lífríki í djúpsjó og í fjörðum við Ísland eru ekki eins.
Búrum með samtals fimm hundruð kílóum af kalksteinshúðuðum viðarflísum var komið fyrir á þrjátíu metra dýpi. Þar munu búrin vera í um það bil ár, og á meðan mun vísindafólk Running Tide mæla efnafræðileg áhrif á sjávarbotninn. Þá verða áhrif á lífverur líkt og bakteríur og hryggleysingja (t.d. slöngustjörnur, burstaorma og samlokur) metin þar sem þær gegna mikilvægu hlutverki í vistkerfi sjávar.
Vísindafólk Running Tide og kafarar frá Sjótækni munu reglulega taka sýni á tilraunasvæðinu og nálægu samanburðarsvæði, sem verða greind af utanaðkomandi rannsóknarstofum og stofnunum. Niðurstöðurnar frá þessum tveimur svæðum verða síðan bornar saman af vísindamönnum Running Tide til að geta metið hvaða breytingar eiga sér stað í umhverfinu.
Á sama tíma eru sambærilegar rannsóknir í gangi með samstarfsaðilum Running Tide á alþjóðavísu, á mismunandi dýpi og í mismunandi sjávarumhverfi. Í samstarfi við kolefnisbindingarfélagið Seafields og Alfred Wegener stofnunina í haf- og heimskautarannsóknum er nú þegar rannsókn í gangi á sömu áhrifum á 4000m dýpi í N-Grænlandshafi og í samstarfi við Ocean Networks Canada, sjávarrannsóknastofnun á vegum Viktoríuháskóla, verður sett upp sambærileg tilraun á 2600m dýpi í NA-Kyrrahafi í haust.
Þessar rannsóknir eru mikilvægur þáttur í að skilja áhrif, möguleika, og virkni kolefnisbindingar í hafi. Loftslagsbreytingar geta haft óafturkræf áhrif á vistkerfi sjávar og með þessum áfanga er tekið stórt skref fram á við í að sannreyna aðferðir til að sporna við hlýnun og súrnun sjávar.