Sælir kæru áskrifendur,
25.000 tonn bundin!
Síðasta ár og mánuðir voru viðburðarík fyrir okkur hjá Running Tide. Rannsóknar- og þróunarstarf okkar á Íslandi leiddi af sér bindingu á yfir 25,000 tonnum af koltvísýringsígildum (CO2e). Þar af afhentum við 21,000 kolefniseiningar til viðskiptavina okkar, en þeirra á meðal eru Microsoft, Shopify og Stripe, sem eru leiðandi kaupendur á valkvæða kolefnismarkaðnum í heiminum og vinna að því að byggja upp öruggan, ábyrgan og áhrifamikinn iðnað í kolefnisbindingu.
Eins og fram kemur á vefsíðunni okkar, þróum við aðferðir við kolefnisbindingu sem nýta sér og herma eftir náttúrulegum ferlum hafsins. Fyrsti fasi verkefnisins var að rannsaka og þróa aðferðir við að sökkva lífmassa af landi (í okkar tilfelli timbri) til varanlegrar geymslu á kolefni. Timburkurlið er húðað kalksteinsefnum til að vega á móti mögulegum neikvæðum áhrifum, áður en því er fleytt á rúmsjó ásamt mælitækjum til að fylgjast með og mæla áhrifin. (Sjá t.d. Carbon Plan - Terrestrial Biomass Sinking)
Við höfum talað um og tekið þátt á ýmsum vísindaráðstefnum bæði hér heima og erlendis til að fjalla um þann árangur sem hefur náðst, en það er kannski ekki augljóst að á bak við tiltölulega einfalda aðgerð (að sökkva og binda kolefni varanlega) er mikil vísinda- og tækniþróun. Við vorum t.a.m með veggspjald á European Marine Biology Symposium 56 tengt rannsóknum okkar á mögulegum umhverfisáhrifum við stærri skala, og annað á Ocean Sciences Meeting 24 um spálíkönin og aðferðirnar sem við notum við að magnbinda og greina kolefnisbindinguna. Frekari upplýsingar á vefsíðunni okkar.
Eftir árið erum við eitt stærsta kolefnisbindingarverkefni heims, og stærst ef litið er til aðferða sem nýta hafið. Það er vissulega gaman að vera “stærst” í einhverju, en á sama tíma er það sem við höfum gert svo lítið í stóra samhenginu að það gerir mann nokkuð dapran að sjá hversu stutt við erum komin…
Þetta er nú meiri steypan…
Íris Mýrdal, rannsóknarstjóri Running Tide á Íslandi hélt erindi á Steinsteypudeginum á dögunum, en þar fjallaði hún um samstarfsverkefni Running Tide og BM Vallá. Íris fór yfir sögu verkefnisins, helstu hindranir og þá ánægulegu niðurstöðu að ræktun þörunga á kolefnisbaujunum tókst vel.
Nýverið voru gefnar út og birtar skýrslur á vefsvæði Running Tide docs.runningtide.com, en þar má meðal annars finna yfirlitsskýrslu um starfsemina á Íslandi árið 2023 og yfirlit yfir framgang og áherslur í rannsóknum og þróun tengda þörungum.
Við tökum reglulega á móti gestum í starfsstöð okkar á Akranesi, en nú nýlega komu gestir frá Hringiðu-hraðlinum sem KLAK heldur utan um og spjölluðu við teymið okkar þar.
Hafsjór lausna…
Röst rannsóknarsetur er samstarfsverkefni Transition Labs og alþjóðlega loftslagslausnaverkefnisins Carbon to Sea. Það mun vinna að lausnum tengdum því að auka basavirkni hafsins (e. Ocean Alkalinity Enhancement - sem er líka ein þeirra aðferða sem við þróum og notum).
Fyrirtækið Vesta er að undirbúa rannsóknarverkefni í Bandaríkjunum þar sem þau munu dreifa 9,000 tonnum af ólivín til að auka basavirkni hafsins og binda þannig kolefni varanlega.
Við tókum þátt í stofnun Hafbjargar, samtaka um sjálfbærni lausnir í hafi. Við mælum með að fólk skrái sig á póstlistann hafi það áhuga á lausnum tengdum hafinu og loftslagsmálum!
Kristinn Árni L. Hróbjartsson
framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi