Running Tide á Steinsteypudeginum 2024
Íris Mýrdal, rannsóknarstjóri Running Tide, hélt erindi á Steinsteypudeginum sem haldinn var fyrir fullu húsi á Grand hótel þann 2. Febrúar síðastliðinn.
Íris fjallaði um mikilvægi kolefnisbindingar í sjó og rannsóknarverkefni sem fyrirtækið hefur verið að vinna með BM Vallá. Almennt er talið að u.þ.b. 8% af allri kolefnislosun heims séu rakin til framleiðslu sements og hafa steinsteypuframleiðendur eins og BM Vallá lagt mikla áherslu á að minnka kolefnisspor sitt. Running Tide vinnur hörðum höndum að því að færa kolefni úr hröðu kolefnishringrásinni í þá hægu og hefur undanfarin misseri unnið að þróun kolefnisbauja ásamt Birni Davíð Þorsteinssyni framkvæmdastjóra framleiðslusviðs BM Vallá og Joanna Bukowska, mastersnema.
Íris fór yfir sögu verkefnisins, helstu hindranir og þá ánægulegu niðurstöðu að ræktun þörunga á kolefnisbaujunum tókst vel. Þörungahluti verkefnisins fór fram á rannsóknarstofu Running Tide á Akranesi leiddar af Ingólfi Braga Gunnarssyni, forstöðumanni hagnýtrar líftækni.
Það eru spennandi tímar framundan í rannsóknum og þróun og þetta samstarf sýnir að það er hægt að leiða saman ólíka geira í áhugaverð verkefni og vonumst við til að það verði nóg af þeim í framtíðinni.
Steinsteypufélags Íslands heldur Steinsteypudaginn árlega. Frábært yfirlit frá ráðstefnunni má sjá í meðfylgjandi myndbandi.