Tveir vísindamenn til liðs við Running Tide.
Running Tide hefur ráðið til sín tvo vísindamenn, þau Sigurð Karvelsson og Hildi Magnúsdóttur.
Sigurður mun sjá um uppskölun á stórþörungarækt og rannsóknir tengdar því (e. Cultivation Scientist) en það er mikilvægur liður í því að auka afköst í föngun koltvísýrings. Sigurður, sem er Skagamaður, mun starfa í líftækniaðstöðu Running Tide á Akranesi - Öldu.
Sigurður er með doktorsgráðu í líf- og læknavísindum frá Háskóla Íslands. Áður en hann hóf störf hjá Running Tide, vann hann við líkanasmíð fyrir framleiðslu líftæknilyfja úr frumum hjá Alvotech.
Hildur tekur þátt í skipulagi og framkvæmd sjávarrannsókna hjá Running Tide (e. Marine Ecologist), bæði til að áætla áhrif af aðferðum Running Tide á umhverfið í hafinu sem og að leita nýrra leiða til að varðveita og byggja upp sjávarlífríkið.
Hildur er með doktorsgráðu í líffræði frá Háskóla Íslands og er sérfræðingur í vistfræði og þróun sjávarhryggleysingja. Áður en hún hóf störf hjá Running Tide vann hún sem nýdoktor á fisksjúkdómadeild Tilraunastöðvar Háskóla Íslands við að rannsaka samþróun sjávarsnigla og agða og hjá Líf- og umhverfisvísindadeild, HÍ, við rannsóknir á svipfari og stofnvistfræði beitukóngs.
Það er mikill fengur fyrir Running Tide að fá þessa framúrskarandi vísindamenn til liðs við fyrirtækið til að stýra rannsóknum á uppskölun stórþörungaræktar og áhrifum kolefnisbindingaraðferða Running Tide á umhverfið.