Stofna hugbúnaðarteymi á Íslandi og ráða tvo hugbúnaðarsérfræðinga
Running Tide hefur ráðið tvo hugbúnaðarsérfræðinga á Íslandi inn í alþjóðlegt hugbúnaðarteymi, nú með tvo meðlimi á Íslandi og tvo í Bandaríkjunum. Ráðningarnar eru liður í áætlunum félagsins að byggja frekar upp rannsóknar- og þróunarstarf á Íslandi.
Teymið vinnur að þróun hugbúnaðar sem heldur utan um gögn, mælingar og útreikninga sem snúa að greiningum á áhrifum og virkni kolefnisbindingar félagsins. Ítarlegt utanumhald um gögn og útreikninga er mikilvægur þáttur kolefnisbindingar og grundvallaratriði til að hægt sé að gefa út áreiðanlegar kolefniseiningar.
Reynir Viðar Ingason tekur við stöðu teymisstjóra hugbúnaðarteymisins, en hann hóf störf hjá Running Tide í lok árs 2022 og var fyrsti starfsmaðurinn í hugbúnaðarþróun á Íslandi. Hann starfaði áður hjá Verna tryggingum, Advania og Annata bæði í Malasíu og Íslandi. Reynir útskrifaðist með BS gráðu tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 2014.
David Blurton hóf störf hjá Running Tide í júní 2023 sem hugbúnaðarsérfræðingur. Áður en hann hóf störf hjá Running Tide leiddi hann teymi hjá Aranja og Takumi á Íslandi ásamt því að vinna hjá Optimal Audio í Bretlandi við að hanna og þróa hugbúnað fyrir hljóðblöndunartæki.
Kristinn Árni Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi:
"Það er mikill fengur fyrir okkur að fá Reyni og David í teymið. Stór ástæða þess að Running Tide kom til Íslands var aðgengi að mannauði við nýsköpunar- og þróunarstörf og þessar ráðningar styðja við þá ákvörðun. Við sjáum fram á að hugbúnaðarteymið stækki á næstu misserum samhliða vexti félagsins hér og alþjóðlega. Loftslagsvandinn er vandi okkar allra og við þurfum allar tegundir þekkingar og sérhæfingar í að vinna að lausnum við honum.”