Running Tide einn stofnenda samtaka um bætta heilsu hafsins
Á nýliðinni Arctic Circle ráðstefnu sem haldin var í Hörpu voru stofnuð samtökin Hafbjörg - Samtök um bætta heilsu hafsins. Auk Running Tide eru stofnendur samtakanna stofnanir og fyrirtæki sem koma að rannsóknum og þróun haftengdra lausna tengdum sjálfbærni og loftslagsmálum.
“Ljóst er að það er vaxandi súrnun sjávar við Ísland og stórt verkefni fyrir höndum ef við ætlum að snúa við þessari þróun. Mikilvægt skref er að auka þekkingu á þeim áhrifum sem loftslagsbreytingar hafa á hafið og það er mikið ánægjuefni að hafa helstu sérfræðinga á Íslandi á málefnum hafsins sem stofnendur samtakanna” segir Íris Mýrdal Kristinsdóttir, verkefnastjóri rannsókna hjá Running Tide
Tilgangur Hafbjargar er að auka vitund og þekkingu á þeim hættum sem steðja að hafinu sökum loftslagsbreytinga og á tækifærunum á því að nýta hafið sem hluta af lausninni. Samtökin munu standa fyrir upplýsingafundum og viðburðum auk þess að gefa út fræðsluefni tengt ýmsum málefnum haftengdra lausna með það fyrir augum að stuðla að upplýstri umræðu og miðla þekkingu.
Í stýrihópi samtakanna eiga sæti:
Íris Mýrdal Kristinsdóttir, verkefnastjóri rannsókna hjá Running Tide
Angel Ruiz Angulo, dósent í haffræði við Háskóla Íslands
Snjólaug Árnadóttir, forstöðumaður CLoCCS við Háskólann í Reykjavík
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, yfirmaður rekstrar hjá loftslagsfyrirtækinu Transition Labs
Irene Polnyi forstöðumaður hjá Carbon to Sea Initiative.
Alexandra Leeper, framkvæmdastjóri hjá Sjávarklasanum.
Að auki kemur alþjóðlega samstarfsnetið Ocean Visions að samtökunum, en Ocean Visions er leiðandi aðili á heimsvísu við að stuðla að framgangi rannsókna á sviðum haftengdra lausna á loftslagsvandanum, og vinnur með helstu hafrannsóknarstofnunum heims á því sviði.
Hægt er að skrá sig á póstlista samtakanna á Hafbjorg.is, til að fá frekari upplýsingar um viðburði og verkefni.