Ræktunarstöð í gámi nýtist sölrækt Lava Seaweed
Fyrsta aðstaða Running Tide til þörungaræktar á Íslandi komin til nýs eiganda.
Í síðustu viku sótti bíll kolsvartan gám sem stóð við hliðina á Nýsköpunarsetrinu Breið á Akranesi. Inni í gámnum var fullútbúin ræktunarstöð - með vatnskerfi og tönkum, vinnusvæði, ljósabúnaði og öðru sem þarf til að rækta stórþörunga.
Þetta var fyrsta skrefið í uppbyggingu Running Tide á fullbúnustu rannsóknar-, þróunar- og framleiðsluaðstöðu vegna stórþörungaræktar á Íslandi. Þar ræktuðum við fyrsta beltisþarann og fyrstu maríusvuntuna, sem sótt hafði verið úr nærliggjandi strandsvæðum af köfurum og þörungafræðingum.
Lava Seaweed er samstarfsverkefni Ocean Rainforest og íslenskra frumkvöðla sem snýst um að rækta upp nokkrar tegundir þörunga til vinnslu og notkunar við nautgriparækt, en áætlað er að með því að gefa nautgripunum það fóður lækki kolefnisspor vegna dýranna umtalsvert.
Þau vinna nú að aðlögun á gámnum að sínum ferli, en þar fara fljótlega af stað tilraunir með sölvarækt.