Rannsóknarverkefni Running Tide á Íslandi elur af sér fyrstu kolefniseiningar sögunnar við bindingu í hafi
Félagið afhenti Shopify fyrstu 100 kolefniseiningarnar á dögunum.
Kolefnisföngunarfyrirtækið Running Tide sem stendur fyrir umfangsmiklu rannsóknarverkefni hér á landi og er með bækistöð á Akranesi náði þeim mikilvæga áfanga í vikunni að afhenda sínar fyrstu kolefniseiningar.
Það var loftslagssjóður Shopify (Shopify Sustainability Fund), alþjóðlega vefverslunarfyrirtækið sem margir þekkja, sem keypti einingarnar árið 2019. Einingarnar samsvara 100 tonnum af varanlegri kolefnisbindingu og marka ekki einungis tímamót í starfsemi Running Tide heldur einnig í baráttunni gegn loftslagsvánni því þetta eru fyrstu kolefniseiningar sögunnar sem verða til við kolefnisbindingu í hafi.
Kristinn Árni Hróbjartsson, framkvæmdastjóri Running Tide: “Þetta er mikilvægur áfangi fyrir bæði okkur og kolefnisbindingu í hafi. En þetta er auðvitað mjög lítið og langt frá því að vera nóg. Við þurfum að draga úr losun á ofsahraða ef við ætlum að snúa við loftslagsáhrifunum sem birtast í öfgafullum veðurfyrirbrigðum víða um heim. Það þarf að byggja upp sérhæfðan iðnað á næstu árum sem getur fært milljarða tonna af kolefni úr hröðu kolefnishringrásinni í þá hægu. Okkar markmið er að finna hagkvæma og örugga og skalanlega leið til að gera þetta í hafi.”
—
Running Tide, sem er upprunalega frá Maine í Bandaríkjunum, hóf starfsemi á Íslandi á síðasta ári í samstarfi við íslenska loftslagsfyrirtækið Transition Labs en byggir á grunni áralangs rannsóknar- og þróunarstarfs og er íslenska rannsóknarverkefnið unnið í samstarfi við helstu rannsóknarstofnanir í heimi á sviði hafrannsókna, t.d. Alfred Wegener stofnunina í haf- og heimskautafræðum og Ocean Networks Canada við Viktoríuháskóla í Kanada.
Shopify rekur sjálfbærnisjóð (Shopify Sustainability Fund) sem er leiðandi kaupandi að varanlegri kolefnisbindingu á heimsvísu.