Mæla sjávargæði í rauntíma
Running Tide hefur í samstarfi við Breið nýsköpunarsetur sett út mælibauju á Akranesi
Running Tide hefur í samstarfi við Breið þróunarfélag sett upp mælibauju við Akranes, sýnilega frá Breið nýsköpunarsetri. Baujan er hönnuð og smíðuð af fyrirtækinu og kemur til með að mæla hitastig, leiðni, sýrustig, styrk uppleysts súrefnis, magn svifagna, oxunar-afoxunar spennu (ORP) og blaðgrænu.
Með þessu verkefni verður til enn frekari þekking á tækni, aðferðum og stöðlum við greiningu á ástandi sjávar við Ísland með tilliti til loftslagsbreytinga sem og tækifæri til nýsköpunar við mat á áhrifum annarra utanaðkomandi þátta á heilsu sjávar, s.s. fiskeldis og fráveitu. Öll gögn birtast í rauntíma í þar til gerðum hugbúnaði, þróaður af Running Tide, og munu gestir Breiðar geta fylgst með ástandi sjávarins “í beinni.” Þessar upplýsingar geta nýst öðrum rannsóknaraðilum, útgerðum, Akraneskaupstað eða hverjum þeim sem hefur áhuga á sjávarheilsu.
Horft er til verkefnisins sem langtímavöktunar og upplýsingarnar sem safnast verða dýrmætar þar sem skortur er á viðlíka rannsóknum við Íslandsstrendur. Afrakstur verkefnisins felst í gagnagrunni, túlkun á honum og árlegri skýrslu um stöðu sjávarins þar sem baujan er staðsett. Aðferð þessi við mat á ástandi sjávar er viðbrögð ný, og mun koma sér vel fyrir aðgerðir í loftslagsmálum almennt og sem lausn fyrir ýmis konar eldi og iðnað til þess að vakta og bæta áhrif sín á sjóinn í kringum okkur.
Um Running Tide
Running Tide er alþjóðlegt, framsækið sjávartæknifyrirtæki sem vinnur að því að vakta, greina, og bregðast við heilsu sjávar, sem almennt fer hrakandi. Fyrirtækið hefur þróað tækni til að örva náttúrulega hæfni sjávarins við að binda kolefni varanlega úr hröðu kolefnishringrásinni í þá hægu, en hækkandi hitastig og súrnun sjávar má með beinum hætti rekja til koldíoxíðsmengunar í andrúmslofti og hafi af mannavöldum. Markmiðið er að bæta lífríki hafsins og skila ávinningnum til sjávarplássa.
Sjá umfjöllun á Skessuhorn.is