Nú er rúmlega ár síðan Running Tide hóf starfsemi á Íslandi og síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar. Við viljum gefa samstarfsaðilum og öðrum áhugasömum tækifæri til að fylgjast með og munum því reglulega senda út bréf með helstu fréttum af framgangi okkar á Íslandi.
Við bættum þér á þennan póstlista því við höfum verið í samskiptum – en ef þú vilt afskrá þig þá er það ekkert mál, smelltu bara á hlekkinn hér að neðst í bréfinu. Sömuleiðis máttu deila þessu áfram á kollega og aðra áhugasama.
Running Tide tók virkan þátt í nýliðinni nýsköpunarviku - ég talaði á viðburði um hafið og sat í panel um kolefnisbindingu á hafi, Marty stofnandi og forstjóri var á stóra sviðinu á OK, bye loftslagsráðstefnunni, og Luke úr viðskiptaþróunarteyminu sat í panel hjá Deloitte um kolefnismarkaði.
Það steðjar ógn að hafinu vegna mannlegra inngripa, og þar er bruni jarðefnaeldsneytis og losun gróðurhúsalofttegunda lang efst á lista. Hafið er að hitna, súrna og súrefnið í því er að minnka. Þrátt fyrir það er lítið talað um þá ógn - hafið er einungis nefnt einu sinni á nafn í Parísarsamkomulaginu!
Það er því nokkuð ljóst í mínum huga að það er nauðsynlegt að rannsaka, byggja upp þekkinguna og þróa tæknina til að geta gripið inn í. Og í því sé ég mikil tækifæri fyrir Ísland. Til að beita mótvægisaðgerðum af skala sem skiptir máli er mikilvægt að við byggjum það á djúpri þekkingu á hafinu og þar er Ísland í frábærri stöðu til að leiða á heimsvísu.
Kristinn Árni L. Hróbjartsson
framkvæmdastjóri Running Tide á Íslandi
Nýtt af nálinni
Við opnuðum formlega, Öldu, aðstöðuna okkar á Akranesi. Hún er staðsett á jarðhæð Breiðar, nýsköpunarseturs, í gömlu fiskvinnslurými. Þar ræktum við þörunga (S. Latissima og Ulva Lactuca), sinnum viðhaldi og uppfærslum á mælitækjum, og erum með aðstöðu til rannsókna. Sjá myndir frá opnuninni á Skessuhorni.
Marty Odlin, stofnandi og forstjóri, var einn aðalfyrirlesara á ársfundi Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, og ræddi þar um heilsu sjávar og hvatti sjávarútveginn til að taka frumkvæði í heilsuvernd sjávar. Fyrirlesturinn hans er hér.
Running Tide, Carbfix, og fleiri kolefnisverkefni voru í lykilhlutverki í þætti Anderson Cooper á CNN “The Whole Story: How to Unscrew a Planet.” Stikla fyrir þáttinn er hér.
Max Chalfin, stjórnarmaður í Running Tide, fjallar um rannsóknaráætlanir okkar á viðburði hýstum af Ocean Visions 7. júní næstkomandi. Hægt er að skrá sig á viðburðinn hér.
Annað áhugavert
Mikilvægt fjármagn hefur bæst í þróun og skölun varanlegrar kolefnisbindingar. Frontier, samstarf nokkurra fyrirtækja sem hafa það að markmiði að byggja upp ábyrgan markað í kringum varanlega kolefnisbindingu, hefur fest kaup á 112.000 tonnum af varanlegri kolefnisbindingu frá Charm Industrial, og greiðir fyrir það 52 milljónir bandaríkjadala eða um 7.3 milljarði króna á árunum 2024-2030. Stuttu áður tilkynnti orkufyrirtækið Ørsted um samning við Microsoft, sem hyggst kaupa 2.76 milljónir tonna af varanlegri kolefnisbindingu af Ørsted, sem bundið verður af nýju orkuveri sem mun nýta Bioenergy with Carbon Capture and Storage tækni.
Áhugaverð rannsókn unnin af vísindafólki Ocean Cleanup Project sýnir að lífverur af strandsvæðum (t.d. þörungar) eru á lífi og að fjölga sér á rúmsjó í kyrrahafinu - á risastóra plastblettinum (e. Great Pacific Garbage Patch). Okkar fyrri tilraunir með ræktun á stórþörungi á rúmsjó hafa sýnt fram á það sama. Greinin birtist í Nature Ecology & Evolution.
Niðurstöður nýlegrar vísindagreinar bendir til að þrátt fyrir að okkur takist að draga úr losun og binda kolefni úr andrúmslofti yfir næstu áratugi, muni súrnunaráhrifa í hafi enn gæta áratugi ef ekki árhundruð eftir að koltvísýringsstig eru orðin sambærileg við stöðuna fyrir iðnbyltingu. Það er því nauðsynlegt að skilja möguleika mótvægisaðgerða við súrnun sjávar. Greinin birtist í Journal of Environmental Sciences.